Þemafundur – Er steypan umhverfisvæn?

Þann 19. janúar síðastliðinn hélt Steinteypufélag Íslands sinn fyrsta þemafund ársins 2021. Var hann haldin í fjarfundi vegna aðstæðna og bar yfirskriftina „Er steypan umhverfisvæn?“. Mæting var mjög góð eða yfir 40 manns sem tóku sér tíma til að vera með.

Á fundinum voru haldin þrjú erindi og opin umræða á eftir. Fundarstjóri var Ingunn Loftsdóttir, varaformaður Steinsteypufélagsins. Fyrsta erindið var haldið af John-Erik Reiersen sem starfar fyrir Betongelementforeningen í Noregi sem bar yfirskriftina „Competition based on knowledge based parameters or by perceptions alone?“. Fjallaði hann um þær áskoranir sem fylgja umræðu um umhverfismál og mismunandi tegundir byggingarefnis, sérstaklega þegar litið er til steinsteypu og timburs. Þar lagði hann sérstaka áherslu á nauðsyn þess að allar umræður og ákvarðarnir byggi á rannsóknum og staðreyndum, og að þar verði steypuiðnaðurinn að taka þátt og leggja sitt af mörkum.

Sigríður Ósk Bjarnadóttir verkfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf fylgdi í kjölfarið með fyrirlesturinn „Hvernig náum við markmiðum um kolefnishlutleysi í steinsteyptum mannvirkjum?“ þar sem hún fjallaði um að hugsa þyrfti alla mannvirkjagerð heildrænt, frá vöggu til grafar. Ekki er eingöngu hægt að hugsa um kolefnisspor við byggingarframkvæmdir og rekstur, heldur einnig þegar kemur að rifi og hvort hugsa ætti öll mannvirki þannig að hægt verði að endurnýta stóran hluta af efnivið þegar líftíma þeirra lýkur.

Að lokum kom Smári Valgarðsson hjá BM Vallá með fyrirlesturinn „Umhverfislýsing á íslenskri steypu“ en BM Vallá er búið að vera í vinnu við að útbúa svokölluð EPD, eða umhverfislýsingu fyrir sínar vörur. Um er að ræða skjal sem gefur staðfestar upplýsingar um umhverfisáhrif yfir vistferil vörunnar og er mikilvægt innlegg til að hægt sé að byggja umræðu og hönnun á staðreyndum en ekki tilfinningu.

Að loknum fyrirlestrum voru líflegar umræður og ljóst að það er mikilvægt að halda henni áfram. Hér að neðan má nálgast fyrirlestrana á pdf formati og einnig er linkur hér fyrir neðan á youtube síðu félagsins en þar má finna upptökur af fyrirlestunum þremur.

John-Erik Reiersen: „Competition based on knowledge based parameters or by perceptions alone?“

Sigríður Ósk Bjarnadóttir: „Hvernig náum við markmiðum um kolefnishlutleysi í steinsteyptum mannvirkjum?“

Smári Valgarðsson: „Umhverfislýsing á íslenskri steypu“

Youtube síða félagsins

Deila á samfélagsmiðlum: